Ályktun frá Samút

Að samtökum Samút standa meðl annars félögin Ísalp, Skotvís, Ferðaklúbbnum 4x4, Jöklarannsóknafélaginu, Ferðafélagi Íslands, Vélhjólaíþróttaklúbbnum, LÍV, Útivist, Kayakklúbbnum, Mótorhjóla og snjósleðaíþróttasambandi Íslands. Samtökin hafa nú sent frá sér eftirfarandi ályktun um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs;

"Samtök Útivistarfélaga (Samút) fagna hugmyndum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs en gera jafnframt alvarlegar athugasemdir við þá útfærslu er nú liggur fyrir Alþingi. Með þjóðgarðinum er ætlunin að stíga stórt skref til verndunar miðhálendisins og ýta undir nýtingu þess fyrir ferðamennsku í sátt við náttúruna. Útivistarfólk hefur um áratugi ferðast um það svæði sem Vatnajökulsþjóðgarður mun ná yfir og í hópi þess eru þeir sem best þekkja hálendið. Markmiðum frumvarpsins verður því ekki náð nema með góðri sátt og samvinnu við útivistarfólk og beinni aðkomu fulltrúa þess að ákvörðunum um ferðamennsku innan þjóðgarðsins.

1. Unnið án samráðs

Ekkert samráð hefur verið haft við Samút eða nokkurt félag útivistarfólks, notenda um útfærslu og stjórnsýslu þjóðgarðarins.

2. Þjóðgarðsstjórn

Ekki er gert ráð fyrir því að samtök Útivistarfélaga eigi fulltrúa í stjórn(um) þjóðgarðsins. Farsælla er að fulltrúar þeirra sem nýta landið til útivistar eigi fulltrúa í þjóðgarðstjórn og í raun ómögulegt fyrir þjóðgarðsstjórn að henda reiður á umfangi og þörfum útivistar og ferðamennsku án beinnar þátttöku útivistarmanna.

3. Almannaréttur og umferð

Reglur um almannarétt og umferð eru óljósar. Útivist og umferð á þessu landsvæði á sér langa sögu og hefðir. Engir eru betur færir að fjalla um almannarétt og umferð en fulltrúar þess fjölbreytta hóps sem nýtir landið til útivistar. Í ljósi þess er aftur minnt á nauðsynlega aðkomu útivistarmanna að undirbúiningi og stjórn þjóðgarðsins.

4. Aðkoma að ágreiningsmálum

Ekki er kveðið á um að leita skuli umsagnar samtaka útivistarfólks varðandi útfærslu á þeim lögum sem hér um ræðir og Samút er ekki gefið færi á að kæra ákvarðanir til umhverfisráðherra og situr því skör lægra en t.a.m. umhverfisverndarsamtök.

Enn og aftur er því minnt á þörfina á því að notendur landsins (Samút) eigi fulltrúa í þjóðgarðsstjórn(um).

5. Gjaldtaka

Ákvæði um gjaldtöku fyrir aðgang að einstökum landsvæðum innan þjóðgarðs eru óljós. Slík gjöld eru óþekkt hérlenis og orka tvímælis gagnvart almannarétti og upplifun og aðgengi útivistarmanna að eigin landi.

6. Verndaráætlun.

Verndaráætlun er ekki til fyrir Vatnajökulsþjóðgarð en skal unnin innan tveggja ára.

Verndaráætlun innifelur m.a. skipulag umferðar og aðgengi og er brýnt að fulltrúar notenda séu þáttakendur í slíkri vinnu. Enn og aftur er því minnt á þörfina á því að Samtök Útivistarfélaga eigi fulltrúa í þjóðgarðsstjórn(um)."

Tekið af vef http://www.f4x4.is/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband